Streymisveitan Netflix hefur fjarlægt annan þátt gamanþáttaraðarinnar „Föðurlandslögin“ (e. Patriot act), í Sádí-Arabíu, eftir að yfirvöld þar í landi sendu beiðni þess efnis, þar sem fullyrt var að þátturinn bryti í bága við lög um netglæpi. BBC segir frá .

Streymisveitan sagðist í tilkynningu um málið styðja listrænt frelsi, en að hún væri tilneydd til að fara að lögum þeirra landa sem hún starfar í.

Í þættinum gerir Hasan Minhaj – bandarískur skemmtikraftur og sjónvarpsmaður af indverskum ættum – grín að framferði sádí-arabískra embættismanna í kjölfar morðsins á blaðamanninum Jamal Khashoggi, og gagnrýnir sádí-arabísk yfirvöld almennt, og krónprinsinn Mohammed bin Salman sérstaklega.

Minhaj segir að bin Salman hafi verið hylltur sem boðberi framfara í trúræðisríkinu, en uppljóstranir um morð Khashoggi hafi gjörbreytt þeirri ímynd. Til séu þeir sem berjist fyrir raunverulegum endurbótum í Sádí-Arabíu, en bin Salman sé ekki meðal þeirra, hann sé ekki að nútímavæða Sádí-Arabíu, heldur aðeins að nútímavæða alræði Sád-ættarinnar.