Hlutabréf í efnisveitunni Netflix hækkuðu um 11% í gær í eftirmarkaðsviðskiptum eftir birtingu ársfjórðungsuppgjörs þar sem meðal annars kom fram að áskrifendum hefði fjölgað um 7 milljónir á fjórðungnum, sem er metvöxtur og mun meira en spáð hafði verið.

Netflix er fyrst hinna svokölluðu FAANG (Facebook, Amazon, Apple, Netflix & Google) fyrirtækja til að birta uppgjör þriðja ársfjórðungs.

Í frétt BBC um málið er uppgjörið sagt hafa endurvakið traust fjárfesta eftir óvenju slæman annan ársfjórðung. Hefðbundnir miðlar og netrisar á borð við Amazon hafa veitt efnisveitunni aukna samkeppni nýverið, samhliða auknum auknum útgjöldum í framleiðslu á eigin efni.

Til stendur að fyrirtækið eyði allt að 8 milljörðum dollara, um 950 milljörðum íslenskra króna, í efni á árinu, og að yfir fjórðungur þess fari í frumsamið efni. Talið er að tæpir 700 klukkutímar af frumsömdu efni hafi bæst við framboð fyrirtækisins á síðastliðnum ársfjórðungi, sem er 135% meira en yfir sama tímabil í fyrra.