Netverslun á Íslandi springur út á næstu fimm árum ef þróunin sem er þegar hafin heldur áfram. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn EMC rannsókna í samstarfi við Hugsmiðjuna þar sem viðhorf mismunandi þjóðfélagshópa á Íslandi til stafrænnar þjónustu og netverslunar var meðal annars könnuð.

Umfang íslenskrar netverslunar er hlutfallslega mun minna en meðal íbúa nágrannalanda okkar en árlegur vöxtur er mun meiri, samkvæmt nýlegri skýrslu á vegum Rannsóknarseturs verslunarinnar. Rannsókn EMC sýnir að þetta gæti breyst hratt á næstu árum.

Í rannsókn EMC kemur meðal annars fram að rúmlega 40 prósent fólks á aldrinum 18 til 54 ára versli meira á internetinu nú en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá má búast við að þrír af hverjum fjórum í þessum aldurshópi kaupi meira í gegnum internetið eftir fimm ár.

Gísli Steinar Ingólfsson, framkvæmdastjóri EMC rannsókna, segir niðurstöðurnar sýna óyggjandi vilja Íslendinga til að versla meira á internetinu. „Fólk er tilbúið í þessa byltingu. Aðgengileg og góð þjónusta á netinu borgar sig og rannsóknin sýnir að á næstu árum munum við sjá fyrirtæki sem nýta tæknina uppskera ríkulega,“ segir hann.

Samkvæmt rannsókninni kaupa ríflega 80 prósent þeirra sem tilheyra þúsaldarkynslóðinni (e. millenials) vöru eða þjónustu oft eða stundum í gegnum internetið. Næstum 75 prósent þeirra sem tilheyra X-kynslóðinni svöruðu eins. Þúsaldarkynslóðin er á aldrinum 18 til 34 ára og X-kynslóðin er á aldrinum 35 til 54 ára.

Rannsóknin sýnir einnig að tekjuhærri neytendur muni auka kaup sín mest á internetinu. Ragnheiður Þorleifsdóttir, framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar, segir það sýna hversu miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslenskar verslanir og þjónustuaðila.

„Með þátttöku okkar í þessari rannsókn viljum við vekja okkar viðskiptavini til umhugsunar um stafrænar lausnir sínar og framtíðarsýn. Neytendur er tilbúnir í þessa þróun sem er virkilega jákvætt og hvetjandi fyrir okkur hjá Hugsmiðjunni að gera stöðugt betur í dag en í gær,“ segir hún.

Margeir Steinar Ingólfsson fer fyrir markaðsteymi Hugsmiðjunnar. „Fólk sem á meira, eyðir meira — og vill endilega eyða enn þá meira. Aðgengileg og góð þjónusta á netinu borgar sig og rannsóknin sýnir að á næstu árum munum við sjá fyrirtæki sem nýta tæknina uppskera ríkulega,“ segir hann.

Nánari upplýsingar um rannsóknina má nálgast hér .