New York ríki í Bandaríkjunum er byrjað að sekta eigendur íbúða sem leigja þær út í gegnum Airbnb um allt að 7.500 Bandaríkjadali, eða sem nemur um 860 þúsund krónum fyrir skammtímaútleigur.

Lögin ná til útleigu skemur en til 30 daga ef eigandinn sjálfur er ekki til staðar. Ríkisstjóri Demókrata í fylkinu, Andrew Cuomo hefur samþykkt lögin.

Airbnb ætlar í mál

Stuðningsmenn laganna segja að skammtímaútleiga skaði hagsmuni Hótela og taki af markaði íbúðir, en íbúðaverð í samnefndri borg í ríkinu er mjög hátt.

Airbnb hefur þegar sagt að þeir muni fara í mál til að aflétta lagasetningunni.

Stjórnvöld að verðlauna sérhagsmunahóp

,,Eins og svo oft áður hafa stjórnvöld í Albany verðlaunað sérhagsmunahóp með samningum í reykfylltum bakherbergjum, í þessu tilviki okrandi hóteliðnaðinn, og virt að vettugi raddir tuga þúsunda New Yorkbúa," sagði Josh Meltzer, yfirmaður hjá Airbnb í New York.

Að framfylgja lögunum verður hins vegar ekki auðvelt, en þúsundir skammtímaleiguíbúða eru á listum Airbnb í fylkinu, þrátt fyrir að lagasetning frá 2010 hafi bannað útleigu undir 30 dögum ef eigandinn eða leigjandinn sé ekki til staðar.

Nýju lögin munu ekki ná til útleigu á einbýlis- eða raðhúsum eða aukaherbergjum íbúða ef íbúinn sé til staðar.

Rúm 70% af íbúðum ólöglegar

Könnun sem gerð var milli 2010 og 2014 af hálfu ríkissaksóknara ríkisins fann út að 72% íbúða til leigu í New York borg væru ólöglegar, þar sem fyrirtæki stæðu fyrir 6% af þeim sem væru að leigja út íbúðir en þeir væru með um 36% af leiguíbúðunum.

Í ágústmánuði voru 45 þúsund íbúðir boðnar til útleigu í borginni og 13 þúsund til viðbótar í fylkinu öllu.