Tap varð af rekstri fjölmiðlasamsteypunnar News Corp, sem er í eigu fjölmiðlamógúlsins Rupert Murdoch. Tapið nam 149 milljónum Bandaríkjadala eða um 18 milljörðum íslenskra króna. Á sama tíma í fyrra varð 23 milljóna Bandaríkjadala hagnaður af rekstri samsteypunnar sem eru um 2,7 milljarðar króna.

Tapið má að einhverju leyti skýra af því að fyrirtækið þurfti að greiða 280 milljón Bandaríkjadala sekt fyrir lögsókn á hendur eins dótturfyrirtækis samsteypunnar. Það eru um 33 milljarðar íslenskra króna. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Tekjur félagsins féllu þá einnig um 7,3% milli ára og voru 1,89 milljarðar Bandaríkjadala. Í uppgjöri félagsins segir að meðal annars hafi gengismunur haft stór áhrif á tapið, en 50% tekna félagsins eru fengnar fyrir utan Bandaríkin.

News Corp mun að sögn koma til með að auka við fjárfestingar sínar í dótturfélagi sínu Dow Jones, sem heldur meðal annars um rekstur fréttamiðilsins Wall Street Journal.

Mikill vöxtur hefur verið í stafrænni þjónustu vörumerkja Dow Jones en um helmingur tekna félagsins kom frá sölu stafrænnar þjónustu. Rafrænir áskrifendur Wall Street Journal eru þá orðnir um 900 þúsund talsins og hefur orðið mikil aukning á áskrifendum.