Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur staðfest að hann muni lýsa yfir neyðarástandi í þeim tilgangi að verða sér úti um fjármagn til að reisa múrinn umdeilda við landamærin við Mexíkó, auk þess að lýsa því yfir að „veggir virki“. BBC segir frá .

Múrinn – sem var eitt helsta kosningaloforð Trumps – varð nýlega kveikjan að 35 daga lokun ríkisstofnana, þeirri lengstu í sögu Bandaríkjanna.

Neyðarástandslöggjöfin er hugsuð sem örþrifaráð, þegar ekki gefist tími fyrir hið hefðbundna lýðræðislega ferli, þar sem grípa þurfi til aðgerða strax, svo sem vegna náttúruhamfara eða stríðs, og mun gefa Trump aðgang að milljörðum dollara, sem hann hyggst til að byggja hinn ófjármagnaða múr.

Demókratar lýstu því samstundis yfir að þeir hygðust fara með málið fyrir dómstóla, en auk dómstólaleiðarinnar getur þingið aflýst neyðarástandi, annað hvort með einföldum meirihluta hvorrar deildar, sem forsetinn sjálfur þyrfti þá að skrifa undir, eða með svokölluðum auknum meirihluta (e. supermajority) – sem felst í því að tveir að ef tveir af hverjum þremur þingmönnum úr báðum deildum samþykkja lög missir forsetinn neitunarvald sitt yfir þeim.

Demókratar hafa meirihluta í neðri deild þingsins og geta því hæglega komið aflýsingu í gegn um hana, en óvíst er hvernig fyrir henni færi í efri deildinni, þar sem Repúblíkanar eru í meirihluta, en sumir þeirra hafa hinsvegar miklar efasemdir um framferði forsetans í málinu. Eftir sem áður er þó afar ólíklegt að aukinn meirihluti næðist, og því mun neitunarvald forsetans líkast til nægja til að gera vangaveltur um efri deildina tilgangslitlar.