Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson hefur átt viðburðaríkan starfsferil. Hann hóf feril sinn í fjármálageiranum hjá Kaupþingi á Norð- urlandi en hélt til Reykjavíkur árið 1999 þar sem hann kom af stað deild eigin viðskipta og var framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi til 2006.

Það ár stofnaði hann ásamt öðrum fjárfestingarbankann Saga Capital og var forstjóri hans til ársins 2010. Saga Capital var tekið til slitameðferðar árið 2012 og í lok síðasta árs var Þorvaldur dæmdur í héraðsdómi Reykjavíkur í 18 mánaða fangelsi fyrir aðild sína að hinu svokallaða Stím-máli. Þorvaldur áfrýjaði dómnum samdægurs og í sumar stofnaði hann ásamt öðrum flugfélag sem sérhæfir sig meðal annars í útsýnisferðum fyrir ferðamenn.

Hvað lá að baki þeirri hugmynd að setja upp fyrstu deild eigin viðskipta í íslenska bankakerfinu þegar þú varst hjá Kaupþingi?

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fjármálamörkuðum og virkni fjármálastofnana og átti þátt í því að búa til fyrstu deildina með formlegan Kínamúrsaðskilnað frá öðrum hagsmunum í bankanum til að við gætum haft alveg skýra sýn á ávöxtun eigin fjár bankans og enga aðra hagsmuni. Okkar skoðun var sú að alger aðskilnaður milli mismunandi starfsemi þyrfti að vera, því hætta væri á hagsmunaárekstrum ef sami maður hefði með höndum annars vegar viðskipti fyrir viðskiptavini bankans og hins vegar fyrir bankastofnunina sem hann starfaði hjá. Því myndi slíkur aðskilnaður, stjórnunarlega og í rými, tryggja hlutlæga ákvarðanatöku út frá réttum forsendum. Ég sá jafnframt fyrir mér að við myndum virka eins og „innri fjárfestingarsjóður“ bankans, þar sem við værum eins og hver annar viðskiptavinur hans að mörgu leyti, en hefðum jafnframt þann tilgang að ávaxta pund bankans á helstu mörkuðum.“

Ástarbréfin urðu Saga Capital að falli

Hvers vegna var síðan ákveðið að stofna Saga Capital?

„Teymið mitt hjá Kaupþingi og ég hittum fyrir tilviljun fólk sem var þeirrar skoðunar að það væri rými og þörf á íslenskum bankamarkaði fyrir lítinn og knáan fyrirtækjabanka sem væri ekki að byggja sín viðskipti á almenningi heldur væri fyrst og fremst stofnanabanki að vinna á heildsölumarkaði og þjónustaði fyrirtæki, fjársterka einstaklinga eða sjóði. Þessir aðilar, sem m.a. voru fjársterkir einstaklingar, sparisjóðir og KEA fjárfestingarfélag á Akureyri, urðu síðan stofnfjárfestar í Saga Capital. Þá var sú hugsun býsna sterk að minni og meðalstór fyrirtæki væru á þessum tíma hálf munaðarlaus þar sem stærri bankarnir voru að þjónusta stærri fyrirtæki, gjarnan á erlendum vettvangi, en grasrótin, smærri fyrirtæki, væru kannski svolítið afskipt og í því gætu falist tækifæri.“

Hvað varð Saga Capital að falli?

„Saga Capital var stofnað á uppgangstíma og við vorum með hátt eiginfjárhlutfall þegar hrunið kom, en það dugði ekki til. Stærsta ástæðan fyrir því að við fórum illa voru þessi svokölluðu ástarbréf. Ástarbréfin voru leið stóru viðskiptabankanna til að fjármagna sig í krónum í gegnum Seðlabankann, þar sem útgefin skuldabréf bankanna sjálfra voru sett að veði og eigið fé litlu fjármálastofnananna, sem voru milligönguaðilar, var einnig viðbótartrygging fyrir Seðlabankann. Að launum fengu smærri fjármálafyrirtækin fjármagnaðar skuldabréfastöður á trausta útgefendur, allavega samkvæmt matsaðilum og stöðugleikaskýrslu Seðlabankans, með góðum vaxtamun. Þegar neyðarlög voru síðan sett og kröfuhafaröð var breytt frá lögunum sem áður giltu, var ljóst að við myndum líklegast ekki kemba hærurnar, þótt við hefðum verið bardagaglöð framan af. Ég hef oft nefnt að við höfðum litlar þrjár vikur af meðbyr áður en óveðursskýin fóru að hrannast upp með falli Fannie Mae og Freddie Mac og undirmálslánakrísunni sem byrjaði 2007. Traust á milli allra bankastofnana í heiminum þvarr og þá auðvitað misstu íslensku bankarnir lánstraust sitt í útlöndum og þurftu í auknum mæli á íslenskri krónufjármögnun að halda, sem Seðlabankinn veitti þeim gegn veði í þeirra eigin skuldabréfum í gegnum litlu aðilana. Það hefur reyndar verið lítið í umræðunni að Seðlabankinn var með tæplega 300 milljarða stabba af lánum og kröfum á íslensku viðskiptabankana sem voru í reynd óveðtryggð, en með aukaábyrgð litlu aðilanna, svona eins og við hefðum skrifað sem útgefendur eða ábekingar upp á víxil. Tap Saga Capital varð síðan meira en hægt var að ráða við en við gerðum sem betur fer á endanum upp við okkar kröfuhafa, þar á meðal ríkissjóð sem hafði tekið yfir kröfu Seðlabanka á okkur og lengt í láninu. Það gleymist í þessari umræðu að við sáum aldrei þessa peninga en við lögðum hins vegar okkar eigið fé að veði. Neyðarlögin fóru því með Saga Capital eins og fleiri fjármálafyrirtæki.“

Nánar er rætt við Þorvald í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .