„Áður en ég fór í bankaráðið var ég stjórnarformaður Sparisjóðs Svarfdæla á Dalvík, var þar í tvö ár, og var síðan beðin um að setjast í bankaráðið árið 2013.

Á aðalfundi í fyrra var svo töluverð endurnýjun þegar fimm bankaráðsmenn hættu en þá var óskað eftir því að ég tæki að mér formennskuna. Ég auðvitað sló til, enda mörg spennandi verkefni þarna fram undan,“ segir Helga Björk sem var fyrsta konan til að verða formaður bankaráðs Landsbankans.

„Í þessu felast fjölmörg skemmtileg verkefni, enda bankinn stærsta fjármálafyrirtæki landsins svo starfsemin er umfangsmikil. Bankaráðið einbeitir sér að stefnumótun og innleiðingu stefnu og hefur eftirlit með starfsemi bankans, svo það eru fjölmargir fundir í ráðinu og undirnefndum þess.“

Fyrir utan stjórnarformennskuna er Helga Björk eigandi gistiþjónustu á Akureyri og svo hefur hún verið í því undanfarið að byggja íbúðir og selja sem verktaki, en hún er með sterkar taugar norður.

„Ég er fædd og uppalin á Dalvík, og fór í Menntaskólann á Akureyri, en ég hef nú verið búsett í Reykjavík frá árinu 1994,“ segir Helga Björk en lífið utan vinnu snýst mest um íþróttir hjá henni og fjölskyldu hennar.

„Ég á mann og við eigum tvo syni, en við höfum mest gaman af íþróttum, bæði fótbolta og handbolta, og svo hef ég mikinn áhuga á útivist alls konar.“

Helga Björk hefur sjálf stundað knattspyrnu í mörg ár, áður fyrr með Þór og KA.

„Síðan stofnaði ég kvennalið á Dalvík og spilaði lengst af með þeim en svo var ég í bumbubolta með vinnufélögum og öðrum alveg þar til ég fór með hnéð á mér í fyrra,“ segir Helga Björk sem saknar fótboltans mikið.

„Nú neyðist ég til að læra að spila golf, það er hættuminna, ætla að byrja á því sumar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .