Þó að erlendir ferðamenn hafi verið 34% fleiri á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra var neysla þeirra 44% meiri.

Á þetta er bent í Hagsjá Landsbankans, en þar segir að með hliðsjón af því hversu lág verðbólga hefur verið undanfarið ár sé ljóst að neysla á hvern ferðamann hefur aukist að raungildi.

Í Hagsjánni segir að það sé einnig athyglisvert að gengi krónunnar hafi verið sterkara í janúar og febrúar á þessu ári en á sama tímabili í fyrra gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum.

Það þýði að neysla erlendra ferðamanna hafi almennt verið að aukast meira í þeirra eigin gjaldmiðli en í íslenskum krónum. Séu einstakir liðir skoðaðir kemur í ljós að aukningin í veltu var mest í menningartengdri neyslu, en sá liður jókst um 71%.