Ný hagspá Greiningardeildar Arion banka var kynnt síðastliðinn þriðjudag undir yfirskriftinni „Fljúgum ekki of nálægt sólinni.“ Titillinn skírskotar annars vegar til ferðaþjónustunnar, sem hefur að miklu leyti staðið undir núverandi hagvaxtarskeiði, og hins vegar til þess að hætta sé á ofhitnun hagkerfisins, því nýjar efnahagstölur benda til þess að framleiðslustig hagkerfisins sé komið umfram framleiðslugetu. Erna Björg Sverrisdóttir kynnti efnahagsorfur greiningardeildarinnar fram til ársins 2019, og Konráð S. Guðjónsson fjallaði um styrkingu krónunnar.

Greiningardeildin spáir að hagvöxtur verði kröftugur í ár og á næsta ári, en síðan hægir á vextinum. Viðskiptaafgangur og góðar efnahagshorfur gætu styrkt krónuna áfram til skamms tíma.

Neysla og fjárfesting dráttarklárar

Greiningardeild Arion banka spáir hagvexti út spátímabilið. Hagvöxtur verður kröftugur í ár og á næsta ári, 4,7% og 5,2%, en hagvöxtur hefur verið undir 5% síðan 2008. Eftir 2017 tekur að hægja á hagvexti, sem verður 3,1% árið 2018 og 2,2% árið 2019. Hagvöxtur er ekki úr takti við söguna og verður um og yfir meðalhagvexti síðastliðinna 35 ára út spátímann, en meðalhagvöxtur á milli 1980 og 2015 nemur um 2,8% á ári.

Helsti drifkraftur hagvaxtarins á spátímabilinu verður kröftugur einkaneysluvöxtur á grundvelli hagstæðs vinnumarkaðar, með litlu atvinnuleysi, vexti kaupmáttar launa og ráðstöfunartekna og innflutningi erlends vinnuafls. Árlegur einkaneysluvöxtur hefur verið umfram meðalvöxt síðastliðinna 35 ára síðan 2014 og núverandi einkaneysluvöxtur er sambærilegur því sem var í fyrri uppsveiflu 2003–2007, að árinu 2005 undanskildu. Spáð er 7,4% vexti í einkaneyslu á þessu ári – mesta vexti í ellefu ár – og svo hægjandi vexti.

Eftir að hafa farið lækkandi frá 2014 hefur dagvöruvelta tekið hressilega við sér á þessu ári, en hún jókst um 8% á þriðja ársfjórðungi. Vöxtur kortaveltu hefur síðan verið í tveggja stafa tölu frá því síðla árs 2015. Dagvöruvelta og kortavelta hafa ákveðið forspárgildi fyrir einkaneyslu. „Þannig að það er ekkert sem bendir til þess að einkaneyslan sé að fara að gefa eftir,“ sagði Erna Björg. Væntingavísitala Gallup stendur síðan í 144,3 , en hæst varð gildi vísitölunnar í maí 2007, eða 154,9, og eru væntingar heimilanna því eins og árið 2007.

Fjárfesting mun einnig keyra hagvöxtinn áfram, en á fyrri helmingi þessa árs jókst fjárfesting um tæp 30%. Því er spáð að hlutur fjárfestingar í landsframleiðslu verði í kringum langtímameðaltalið (um 21%) á spátímabilinu í fyrsta skipti eftir fjármálakreppuna. Sérstaklega mun atvinnuvegafjárfesting í stóriðju, raforkuframleiðslu og ferðaþjónustu draga vagninn fram til ársins 2018. Gert er ráð fyrir því að íbúðafjárfesting vaxi á tímabilinu og vaxi um 22% á næsta ári, sem er metvöxtur, en grundvöllurinn fyrir því er hækkandi fasteignaverð og uppsöfnuð fjárfestingarþörf á íbúðamarkaði.

Mikill vöxtur í innfluttum neyslu- og fjárfestingavörum, auk innfluttrar þjónustu, endurspeglar vaxandi umsvif og heildareftirspurn í hagkerfinu. Því er spáð að vöxturinn haldi áfram en að aukningin fari minnkandi fram til 2018. Þjónustuútflutningur, og þá helst ferðaþjónustan, drífur áfram útflutningsvöxt að mestu, en vöxturinn er einnig studdur af álútflutningi og útflutningi annarra afurða á borð við kísil. Batnandi viðskiptakjör hafa stutt útflutningsvöxtinn, en því er spáð að viðskiptakjör fari versnandi út spátímabilið. Spáð er minnkandi viðskiptaafgangi á spátímanum sem snýst í halla árið 2019.

Verðbólguskot og óbreyttir stýrivextir

Greiningardeildin spáir verðbólgu undir 2% fram til 2018. Eftir því sem grunnáhrifin af innfluttri verðhjöðnun og hrávöruverðslækkunum fjara út og fasteignaverð heldur áfram að hækka skapast verðbólguþrýstingur, sem mun skjóta verðbólgunni upp fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans um áramótin 2018/2019 í um 3,5%. Verðbólgan fer síðan lækkandi 2019 og helst hún því undir efri vikmörkum (4%) út spátímann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .