Neytendastofa hefur sektað smálánafyrirtækin fyrir að fara ekki að lögum um neytendalán. Smálánafyrirtækin innheimta allt of háan kostnað vegna lána, að mati Neytendastofu.

Á vef Neytendastofu segir að lánveitendur eiga í lánssamningi að veita neytendum bæði skýrar upplýsingar um kostnað sem fylgir láninu, þ.e. lántökugjöld, vexti, þóknun, skatta og öll önnur gjöld, og upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar (ÁHK). ÁHK er allur kostnaður af láninu gefinn upp í einni prósentutölu sem má samkvæmt lögum um neytendalán ekki vera hærri en 50% að viðbættum stýrivöxtum. Lögin setja því takmörk við því hversu mikinn kostnað lánveitendur mega taka.

Árleg hlutfallstala kostnaðar er mun hærri hjá öllum fyrirtækjunum en 50% eða 2.036,6% hjá Múla, Hraðpeningum og 1909 og 3.214,0% hjá Kredia og Smálán. Vegna þessa hefur Neytendastofa sektað smálánafyrirtækin fyrir að fara ekki eftir lögum um neytendalán.