Ríkisstjórn Brasilíu ætlar að skera ríkisútgjöld niður um sem nemur 890 milljörðum íslenskra króna og setja á að nýju skatt á fjármálahreyfingar, sem á að skila ríkinu um 1.020 milljörðum króna í tekjur. Er þetta gert til að reyna að minnka hallarekstur ríkissjóðs, sem er umtalsverður.

Formlega er hagkerfi Brasilíu í kreppu, þ.e. að hagkerfið hefur dregist saman í a.m.k. tvo fjórðunga í röð og þá mælist fylgi Dilma Rousseff, forseta landsins, aðeins um 8%.

Fækka á ráðuneytum í ríkisstjórninn um tíu og verða þau 29 talsins eftir breytuingar og þá á að fækka ríkisstarfsmönnum um 1.000 og frysta laun þeirra sem eftir sitja. Einnig verður hætt við nokkur stór innviðaverkefni sem áformað hafði verið að ráðast í. Samkvæmt frétt BBC vekja áform stjórnvalda ekki mikla hrifningu sérfræðinga, sem telja að þau muni gera lítið til að bæta fjárhagslega heilsu ríkissjóðs.