Stefán Sigurðsson, forstjóri Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, segir að viðræður um kaup félagsins á ljósvaka- og fjarskiptahluta 365 miðla, séu ekki langt komnar. „Við fréttum fyrir ekki svo löngu síðan að þessi hluti gæti verið til sölu og þá fóru óformlegar þreyfingar af stað milli ráðgjafa um það hvort við ættum að skoða þetta. Það er auðvitað þannig með skráð fyrirtæki eins og okkur að við verðum að gæta mjög vel að því að allir fjárfestar sitji við sama borð. Þar af leiðandi er málið komið styttra en ef tvö óskráð fyrirtæki væru að tala saman. Um leið og við förum formlega að ræða eitthvað saman þá þarf að tilkynna út á markað.“

Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að seinni partinn í gær hafi hann fengið umboð stjórnar til að taka þetta á nesta þrep í málinu og að í morgun hafi hann skrifað undir forsendur einkaviðræðna.

Aðspurður segir hann ljóst að kaupin muni koma til kasta Samkeppniseftirlitsins. „Það mun koma í ljós hvað kemur út úr því. Þetta er auðvitað markaður sem hefur verið á fullri ferð og er alltaf að breytast. Það er mikilvægt fyrir okkur ef við höfum áhuga að fara alla leið og kanna grundvöll og tala við Samkeppniseftirlitið. Það er bara partur af þessu.“

Hann segir mjög algengt í aðstæðum sem þessum að viðræður fari fram í einkaviðræðum. „Það getur verið erfitt ef allir eru að tala við alla þegar um flókin viðskipti eins og þessi er að ræða. Báðir aðilar vilja að reyna að ná jákvæðri niðurstöðu og fara inn með ákveðnar forsendur.“

Hann segir að fari svo að fyrirtækin tvö nái saman fari það inn á borð eftirlitsaðila. „Fyrri part næsta árs þá ætti í fyrsta lagi niðurstaðan að vera ljós. Maður gerir ekki neitt nema maður sé bjartsýnn og trúi á að það sé hægt. Nú fer í gang ferli sem tekur tíma og kostar sitt. Það gerir maður ekki nema maður hafi trú á því að hægt sé að skapa jákvæða niðurstöðu. Ég er auðvitað bara bjartsýnn að þetta geti gengið eftir.“