Hlutabréf í Nike sportvörufyrirtækinu hafa fallið um meira en 5% í dag og drógu bréf fyrirtækisins Dow Jones vísitöluna með sér.

Þegar þetta er ritað fæst hvert bréf félagsins á 54,31 Bandaríkjadal, sem er gengislækkun um 6,38%, en lækkunin á þessu eina fyrirtæki dugar til þess að vísitalan hefur farið niður á við í dag.

Nemur vægi lækkunar bréfanna 23 punktum af vísitölunni, meðan vísitalan sjálf hefur lækkað um 7 punkta.

Nike birti eftir lokun markaða í gær uppgjör þriðja ársfjórðungs en hagnaður fyrirtækisins fór fram úr væntingum markaðarins en tekjurnar voru minni en vænt hafði verið.

Nike býst við að vöxtur fyrirtækisins utan Bandaríkjanna verði góður, en á sama tíma er það varkárara um stöðu sína innan landsins.