Stærsti íþróttavöruframleiðandi heims, Nike, mun hætta að selja golfkylfur, bolta og poka í kjölfar minnkandi sölu þriðja árið í röð.

Sífellt minnkandi þátttaka

Er golfdeild fyrirtækisins sú deild fyrirtækisins sem verst hefur staðið sig og sú minnsta, en sala minnkaði í henni um 8,2% niður í andvirði 706 milljón Bandaríkjadala á fjárhagsárinu sem lauk í maí síðastliðnum.

Ekki hillir undir mikinn vöxt í framtíð heldur með sífellt minnkandi þátttöku í íþróttinni. Hefur þátttaka í golfi minnkað um 24% síðan hún náði hámarki árið 2002 í Bandaríkjunum. Íþróttin virðist sérstaklega ekki vera að ná vinsældum meðal ungs fólks.

Tiger Woods helsta stjarna fyrirtækisins

Nike mun þó áfram selja skó og föt, en fyrirtækið hefur selt fatalínu undir nafni Tiger Woods sem var helsta stjarnan í golfheiminum í mörg ár og helsta auglýsingin fyrir golfvörur fyrirtækisins.

Sérstaklega reis stjarna hans hátt á seinni hluta 10. áratugs 20. aldarinnar, og 1. áratugs 21. aldarinnar, en hann tók sér hlé frá keppni eftir bílslys fyrir utan heimili hans árið 2009 sem leiddi til viðurkenningar á framhjáhaldi. Eftir að hann hóf aftur þátttöku hefur hann ekki náð sama árangri og áður þegar sigurganga hans virtist óstöðvandi.

Adidas reynir einnig að selja sig út úr golfinu

Adidas, helsti keppinautur Nike, er einnig að reyna að losna út úr golfmarkaðinum og hafa þeir reynt að finna kaupanda að framleiðslu sinni á golfbúnaði, en hann hefur dregið niður hagnað fyrirtækisins. Framleiða þeir meðal annars Adams kylfur og TaylorMade vörumerkið.