Nikkei vísitalan hækkaði um 3,7% í nótt. Tölurnar gefa til kynna að jarðskjálftinn í Kyushu í Japan hafi ekki haft þau slæmu áhrif á markaðina sem framleiðslufyrirtæki í landinu höfðu óttast. Dow Jones vísitalan náði sínu hæsta gildi frá í júlí og telja sérfræðingar í Japan að það hafi hjálpað til við hækkanir í kauphöllinni eystra.  Þetta kemur fram í Morgunpósti IFS í dag.

Kreppa í stáliðnaði

Ekki náðist samkomulag milli helstu stálframleiðsluríkja á fundi í Brussel í gær, en markmið fundarins var meðal annars að reyna að ná tökum á offramleiðslu á stáli. Minnkandi framleiðsla í heimshagkerfinu hefur undanfarið haft neikvæð áhrif á stáliðnaðinn, en af þeim 2,4 milljörðum tonna sem framleidd voru af stáli á árinu 2015 voru einungis 67,5% nýtt. Augu framleiðsluríkjanna hafa að undanförnu beinst að kínverskum stáliðnaði en Kína framleiðir um helming af öllu stáli í heiminum.

Rio Tinto dróg saman fyrri spá félagsins um sölu á járngrýti fyrir árið 2017. Sölumarkmið ársins 2016 standa þó enn óhögguð. Þvert á þróun annarra markaða jókst sala á járngrýti um 11% á fyrsta ársfjórðungi 2016 saman borið við fyrsta ársfjórðung 2015.