Nils Petter Nordskar, sem tekur sæti í stjórn framleiðslufyrirtækisins Tjarnargötunnar, hefur verið einn helsti hugmyndasmiður og drifkraftur í markaðsmálum í Noregi undanfarin 25 árin, að því er segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

“Eftir að hafa unnið hjá mörgum af helstu auglýsingastofum Noregs í nokkur ár stofnaði Nordskar sína eigin stofu, Nordskar&Thorkildsen sem varð sigursælasta auglýsingastofa Noregs á áttunda og níunda áratugnum,“ segir í tilkynningunni.

„Eftir að hafa hlotið nær öll þau verðlaun sem í boði voru í Noregi auk alþjóðlegra verðlauna seldi Nordskar auglýsingastofu sína til hinnar margrómuðu stofu Leo Burnett í Chicago og yfirgaf hann í kjölfarið stofuna og hóf að einbeita sér að stafrænum miðlum.“

Eitt stærsta tæknifyrirtæki Noregs

Stofnaði hann jafnframt fyrirtækið New Media Science sem nú undir nafninu Bouvet er eitt stærsta tæknifyrirtæki Noregs samkvæmt Oslo Stock Exchange. Í dag fjárfestir Nordskar tíma sínum og peningum í nýjar og spennandi viðskiptahugmyndir sem og að hjálpa völdum aðilum að vaxa og dafna.

„Nils er maður sem þekkir bæði hefðbundin markaðsfræði sem og notkun net- og samfélagsmiðla.  Að mínu mati eru þeir fáir sem eyrnamerkja jafn mikinn tíma í að lifa og hrærast í þeim ólgusjó sem þessi bransi er”  segir Einar Ben, framkvæmdarstjóri Tjarnargötunar.

„Það að fá Nils Petter Nordskar í stjórn er gríðarlegur hvalreki fyrir fyrirtækið. Þetta er liður í því að efla það starf sem þegar er á góðum stað sem og að móta okkur sterkari stefnu og framtíðarsýn varðandi verkefni hérlendis og erlendis.”