Í samræmi við lög Samtaka iðnaðarins fara fram rafrænar kosningar í tengslum við Iðnþing sem haldið verður 8. mars næstkomandi. Kosið er sérstaklega um formanns til eins árs í senn og er Guðrún Hafsteinsdóttir þar ein í framboði. Kosið er um fimm almenn stjórnarsæti sem kosið er til tveggja ára en 8 einstaklingar hafa boðið sig fram í sætin, þar af 4 til endurkjörs.

Hver félagsaðili hefur atkvæði í hlutfalli við greidd félagsgjöld ársins 2017 og hverjum heilum 1.000 krónum í greiddum félagsgjöldum fylgir eitt atkvæði. Tekið er fram á heimasíðu samtakanna að enn er hægt að öðlast atkvæðisrétt með því að greiða vangoldin félagsgjöld ársins 2017.

Framboðsfrestur til stjórnar og fulltrúaráðs samtakanna rann út 6. febrúar og er hægt að sjá kynningu á frambjóðendunum á heimasíðu SI .

Eftirtaldin bjóða sig fram í stjórn SI nú:

  • Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss er formaður - býður sig áfram fram.
  • Árni Sigurjónsson, yfirlögfræðingur Marel - situr í stjórn.
  • Agnes Ósk Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri GK-Snyrtistofa - situr í stjórn.
  • Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Isam - situr í stjórn.
  • Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Pizza-Pizza ehf.
  • Egill Jónsson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs Össurar - situr í stjórn.
  • Guðmundur Skúli Viðarsson, ljósmyndari og eigandi Myndsköpun Ljósmyndagerð ehf. og markaðsfræðingur Hertz á Íslandi
  • María Bragadóttir, VP Strategic Partnerships og framkvæmdastjóri Alvogen Iceland ehf.
  • Valgerður Hrund Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa ehf.