Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa ákveðið að þiggja boð ríkisstjórnarinnar um að taka að sér formennsku í þremur fastanefndum Alþingis að því er mbl.is greinir frá. Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins staðfestir að stjórnarandstaðan muni taka að sér formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins, velferðarnefnd og umhverfis- og samgöngunefnd.

Mun Miðflokkurinn taka við formennsku í þeirri síðastnefndu, Samfylkingin í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og Píratar í velferðarnefnd. Þeir tveir síðustu munu þó skipta um nefndarformennsku á miðju kjörtímabilinu við hvorn annan.

„Við ákváðum að taka þessar nefndir sem ríkisstjórnarflokkarnir skömmtuðu okkur en við erum auðvitað ósátt við það að ekkert annað var til umræðu,“ segir Gunnar Bragi sem segir ekki hafa verið gengið frá tilnefningu stjórnarandstöðunnar í varaformennsku í nefndir.

„Það var nóg af fögrum orðum en síðan bara orðin tóm. Við óskuðum eftir því að fá fjórðu nefndina eða fá að skipta á nefndum en það var ekki hægt.“Einnig á eftir að ganga endanlega frá formennsku í þremur alþjóðanefndum sem stjórnarandstöðunni býðst.