Fjárfestingarfélagið Nordic Partners hefur undirritað samning við Remmen Hotels, sem er í fjölskyldueigu, um kaup á fasteignum og rekstri hótelanna D?Angleterre, Kong Frederik og Front, einum þekktustu hótelum Danmerkur sem öll eru í hjarta Kaupmannahafnar. Auk hótelanna og tilheyrandi veitingastaða kaupir Nordic Partners einnig rekstur veitingastaðarins Copenhagen Corner við Ráðhústorgið.

Í tilkynningu kemur fram að kaupverð er trúnaðarmál. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var ráðgjafi kaupenda en Landsbankinn fjármagnaði kaupin.

Gísli Reynisson hjá Nordic Partners segir kaupin í samræmi við fjárfestingarstefnu félagsins sem keypt hefur yfir 200.000 fm af fasteignum það sem af er árinu. ?Í fyrstu höfðum við einungis áhuga á fasteignunum en nú stendur hugur okkar til að reka hótelin og veitingastaðina til lengri tíma. Við gerum ráð fyrir að Tony Baks, framkvæmdastjóri hótelanna, og lykilstarfsmenn haldi áfram. Til að byrja með eru litlar breytingar fyrirhugaðar á rekstrinum sem er á traustum grunni en lengi má gott bæta.?

Lúxushótelið D?Angleterre, sem er við Kongens Nytorv, á sér yfir 250 ára sögu og hefur í áratugi verið flaggskip danskra og skandinavískra hótela. Á D?Angleterre eru 123 fyrsta flokks herbergi og aðstaða öll eins og best verður á kosið. Helstu þjóðhöfðingjar, viðskiptajöfrar og listamenn heims eru tíðir gestir á hótelinu. Hótel Kong Frederik er rótgróið fyrsta flokks 110 herbergja hótel við Ráðhústorgið, rétt við Tívolí og Strikið. Á hótelinu er hinn þekkti bar Queens Pub og veitingahúsið Brasserie Le Coq Rouge. Hótel Front er nútímalegt hótel við höfnina í Kaupmannahöfn, gegnt nýja óperuhúsinu, og í tveggja mínútna göngufæri frá Nyhavn. Góðir veitingastaðir eru á hótelinu. Copenhagen Corner er veitingastaður í iðu mannlífsins við Ráðhústorgið og Tívolí með pláss fyrir 250 matargesti og funda- og ráðstefnuaðstöðu fyrir um 400 manns.

Nordic Partners er fjárfestingarfélag í eigu fjögurra fjárfesta. Saga þess nær aftur til 1997 þegar það tók þátt í einni fyrstu einkavæðingu Lettlands. Félagið á fjölbreytt eignasafn á Íslandi, í Litháen, Eistlandi, Lettlandi, Póllandi, Danmörku og víðar. Í Lettlandi á félagið umfangsmikla iðn- og viðskiptagarða, fyrirtæki í hafnarstarfsemi og stórar landareignir. Félagið hefur einnig fjárfest í matar- og drykkjarvöruframleiðslu í Austur-Evrópu, s.s. Laima, Staburadze, Eurofood, Margirtis og Gutta. Þá kemur félagið að flugrekstri, timburframleiðslu auk reksturs fisk- og kjötvinnslu á Íslandi en það rekur sælkeraverslanir undir nöfnunum Gallerí Kjöt, Fiskisaga og Ostabúðin.

Stjórnarformaður Nordic Partners er Jón Þór Hjaltason. Forstjóri og aðaleigandi er Gísli Reynisson. Framkvæmdastjóri á Íslandi er Bjarni Gunnarsson og í Lettlandi Daumants Vitols.