Norska fyrirtækið SalMar ASA, eitt stærsta fiskeldisfyrirtæki í heimi, hefur keypt ráðandi hlut í Arnarlaxi, sem er stærsti framleiðandi eldislax á íslandi að því er Fiskifréttir segja frá. Fyrir átti félagið 41,95% en hefur nú eignast 54,23% með kaupum á 3.268.670 hlutum í félaginu til viðbótar.

Nam kaupverðið um 180 milljónum norskra króna, eða sem samsvarar um 2,5 milljörðum íslenskra króna. Í framhaldi af tilboðinu, sem var í hlut í Arnarlaxi AS, sem á íslenska félagið Arnarlax ehf. að öllu leiti, hefur félagið gert tilboð um kaup á öllu hlutafé sem eftir er í félaginu.

Er tilboðið á 55,50 norskar krónur á hlut, sem er aðeins hærra en þær 55 krónur norsku sem áðurnefndir hlutir fengust á. Samtals býður félagið í 12.181.761 hluti sem eftir standa, sem samanlagt eru þá á rétt rúmar 676 milljónir norskra króna, eða sem samsvarar nærri 9,4 milljörðum íslenskra króna. Þar með meta eigendurnir heildarmarkaðsvirði félagsins á 20,5 milljarða íslenskra króna.

Þó hefur Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax AS, sagt að hann muni ekki selja sína hluti heldur verða áfram einn af eigendum félagsins.

SalMar er sem fyrr segir eitt stærsta fiskeldisfyrirtæki heims. Það er með yfir 100 leyfi fyrir sjókvíaeldi fyrir Atlantshafslax í Noregi og þar til viðbótar 68 leyfi í Mið-Noregi og 32 leyfi í Norður-Noregi í gegnum Salmars sem er að öllu leyti í eigu SalMar Nord AS, dótturfyrirtæki SalMar ASA.

Norskott Havbruk AS, sem er 100% eigandi Scottish Sea Farms Ltd, næst stærsta laxeldisframleiðanda Bretlands, er 50% í eigu SalMar ASA.