Norðmenn munu nota 3% af olíusjóði sínum við rekstur ríkisins á næsta ári. 2,8% af sjóðnum voru notuð á þessu ári, en aukningin nemur 17,3 milljörðum norskra króna. Það þýðir að níunda hver króna mun koma úr olíusjóðnum. Siv Jensen, fjármálaráðherra Noregs, kynnti fjárlagafrumvarp næsta árs í þinginu síðastliðinn miðvikudag.

Ætlunin er að auka fjárfestingar og lækka skatta til þess að örva hagvöxt í landinu, en spár benda til þess að hagvöxtur verði minni á næstu árum en verið hefur. Stjórnarandstaðan gagnrýndi frumvarpið í gær og sagði skattalækkanir aðeins koma efnuðu fólki til góða.

Samkvæmt frumvarpinu verður tveimur milljörðum norskra króna aukalega varið í heilbrigðiskerfið, en það eru um 37 milljarðar íslenskra króna. Þá verður þróunaraðstoð aukin um milljarð norskra króna og sérstök aðstoð við Úkraínu verður 200 milljónir norskra króna.