Forsetaframbjóðandi Repúblikana, Donald Trump, hefur þolað talsverða gagnrýni frá - mögulega - tilvonandi kollegum sínum í öðrum löndum. Meðal annars hefur umræða um að meina honum aðgangi að Bretlandi sprottið upp, meðan aðrir þjóðhöfðingjar hafa kallað hann hættulegan og vafasaman.

Nú virðist sem Trump eigi hauk í horni hjá engum öðrum en Norður-Kóreumönnum. Ríkisfjölmiðlar þarlendis lýstu því yfir að Trump væri „vitur stjórnmálamaður,” og að „margar jákvæðar hliðar séu á málflutningi [Trump].” Auk þess kallaði ríkisfjölmiðillinn Hillary Clinton „sljóa” og „bitlausa.”

Þessar yfirlýsingar frá kommúnistaríkinu kunna að koma mörgum á óvart. Skýringuna má ef til vill finna í ummælum Trump hvað varðar herbúðir Bandaríkjamanna í Suður-Kóreu - sem eru meginandstæðingar Norðanmanna - en honum finnst þær of kostnaðarsamar og vill færa bandarísku hermennina heim.

Þess að auki hefur Trump lýst því yfir, við fréttastofu Reuters fyrr í mánuðinum, að hann sé tilbúinn að eiga viðræður við Kim Jong-Un, einræðisherra Norður-Kóreu - hann ætti ekki í neinum vandkvæðum með að koma á viðtalstíma milli þeirra tveggja.