Í ársreikningi Orkuveitu Reykjavíkur er fjallað um viðskiptavini sem hafa veruleg áhrif á tekjur samstæðunnar.

„Einn viðskiptavinur Orku náttúrunnar hefur veruleg áhrif á fjárhæð heildartekna samstæðunnar á árinu 2016 vegna kaupa á rafmagni til stóriðju," segir í skýringu 3 í ársreikningnum.

Hér er verið að vísa í tekjur Orku náttúrunnar vegna samnings við Norðurál. Í skýringunni kemur fram að í fyrra hafi þær numið 5,3 milljörðum króna, sem er 12,8% af heildartekjum OR samstæðunnar. Árið 2015 námu þessar tekjur tæpum 6 milljörðum sem var 14,8% af heildartekjunum.