Norðurál vísar á bug ásökunum Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar sem birtust í fjölmiðlum í gær.

Hörður sagði m.a. að umræðan undanfarið um raforkuverð litist af því að nú séu í gangi samningaviðræður við Norðurál á Grundartanga um nýjan raforkusamning. Hann segir að þegar jafn miklir hagsmunir séu í húfi og raun ber vitni sé öllum meðulum beitt.

Norðurál segir að af máli forstjóra Landsvirkjunar megi draga þá ályktun að nær öll gagnrýni sem beinist að Landsvirkjun í opinberri umræðu, í málum af ýmsum toga, sé á ábyrgð Norðuráls. Norðurál hafnar því einnig að Norðurál stýri ákveðnum verkalýðsfélögum.

Í tilkynningunni segir einnig að það sé óvænt og vonbrigði að Landsvirkjun skuli koma fram með þessum hætti.

„Viðræður um samningsbundna framlengingu orkusamnings milli fyrirtækjanna hafa farið fram af kurteisi og virðingu og góður gangur verið í þeim nýlega. Það er því óvænt og mikil vonbrigði að Landsvirkjun skuli koma fram með þessum hætti eftir nærri 20 ára farsælt samstarf fyrirtækjanna.“