Flugfélagið Ernir hefur séð viðsnúning í eftirspurn eftir innanlandsflugi síðan á síðasta ári, en flugfélagið flýgur til Vestmannaeyja, Hafnar í Hornafirði, Húsavíkur og Bíldudals og á Gjögur á Vestfjörðum.

„Það er ekki langt síðan það var fækkun í flugi, við erum ekki að sjá þessa fjölgun verða fyrr en í byrjun síðasta árs,“ segir Ásgeir Örn Þorsteinsson, sölu- og markaðsstjóri flugfélagsins Ernis.

Útsýnisflug fyrir farþega skemmtiferðaskipa

„Við þjónustum flest öll skemmtiferðaskip sem koma til landsins, við tökum fólk í útsýnisflug um landið. Svo erum við mikið af erlendum hópum sem eru að fara í hjólaferðir, gönguferðir og þess háttar. Við fljúgum með þá í leiguflugi þvers og kruss um landið,“ segir Ásgeir Örn.

„Þá eru þetta mikið til ferðaskrifstofur sem eru að skipuleggja ferðir fyrir hópa, og áætlunarflugið hentar ekki, og þá finnum við aðra lausn í leiguflugi. Leiguflugið er að detta svolítið inn aftur eftir smá lægð, en það byrjaði kannski 2012 og 2013 að taka við sér aftur eftir hrun.“

Vilja dreifa ferðamönnum um landið

Ásgeir segir nauðsynlegt að allir leggist á eitt til að hægt sé að dreifa auknum ferðamannastraum út um landið.

„Ekki bara við, heldur ferðaþjónustan í heild á stöðunum. Við erum búin að leggja í mikið starf svo fólk átti sig á að þessi kostur sé í boði. Okkar púður fer mest í að auglýsa inn á erlenda markaði, svo auglýsum við einnig mikið heima í héruðunum, til að vera með í lífinu þar,“ segir Ásgeir Örn.

„Við erum með pakkaferðir, norðurljósaferðir og annað, bæði dagsferðir, tveggja nætur ferðir og lengri pakka, þá fyrir ferðamenn sérstaklega. Við förum með fólk á Jökulsárlón, svo förum við með fólk í sleðaferðir upp á jökul á sleða auk fjórhjóla- og hestaferða. Allt á vegum okkar.“

Vetrarferð til Vestfjarða

Flugfélagið er með samstarfsaðila um land allt, Húsavík, Mývatni, Hornafirði og í Vestmannaeyjum. Það nýjasta sem fyrirtækið er með í boði er fyrir þá ferðamenn sem vilja kynnast sunnanverðum Vestfjörðum.

„Við vorum að setja á síðuna okkar svolítið sem heitir Vestfjords Winter break. Þá fara ferðamennirnir um morguninn til Bíldudals, eru þar yfir daginn og fara á Jeppa sem tekur á móti þeim með leiðsögumanni á Látrabjarg, og Rauðasand og annað. Þetta verður í boði allt árið um kring, en yfir veturinn er boðið upp á norðurljósaferð um kvöldið, síðan gista þeir á hóteli og fljúga heim daginn eftir.“