Norðurorka hagnaðist um 662 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 62 milljónir króna frá fyrra ári. Þetta má sjá í nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins.

Sölutekjur fyrirtækisins námu rúmlega 2,9 milljörðum króna á rekstrarárinu samanborið við 2,6 milljarða króna ári fyrr. Rekstrarhagnaður félagsins nam 825 milljónum króna og jókst um 52 milljónir króna milli ára.

Eignir Norðurorku námu tæplega 11,8 milljörðum króna í lok ársins og jukust um 140 milljónir króna á milli ára. Eigið fé félagsins nam 6,6 milljörðum króna og jókst um hálfan milljarð frá fyrra ári.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði 15% arður til hluthafa á árinu 2015.

Hlutafé í árslok nam 846,7 milljónum króna og eru hluthafar félagsins sex í heildina. Akureyrarkaupstaður er langstærsti hluthafi fyrirtækisins með 98,3% eignarhlut.