Lokið er árlegri vistfræðirannsókn í Noregshafi sem rannsóknaskip frá Noregi, Íslandi, Færeyjum og Danmörku (fyrir hönd ESB) tóku þátt í. Samkvæmt henni er vísitala norsk-íslensku síldarinnar 7,5% lægri en í fyrra en það er þó innan skekkjumarka.

Í frétt á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar segir að vísitalan hafi jafnast út síðan 2012 en sveiflist dálítið upp og niður frá ári til árs.

Norsk-íslenska síldin er oftast í ætisgöngum miðsvæðis í hafinu milli Noregs og Íslands á þeim tíma sem rannsóknirnar fara fram ár hvert og er áfram stærsti lífmassinn þar. Síld af árganginum 2004 hefur verið uppistaðan í veiðinni nokkur undanfarin ár og er það enn. Hins vegar eru vísbendingar um að yngri fiskur sé að koma inn í stofninn. Sérstaklega er talið að 2013 árgangurinn kunni að verða góð viðbót þótt hann líti ekki út fyrir að verða jafnstór og 2002 og 2004 árgangarnir.

Í leiðangrinum kom einnig fram að nýliðun í kolmunnastofninn virðist vera góð og er 2014 árgangurinn þar fyrirferðarmestur.