Þrátt fyrir að vera með stærstu framleiðendum á fiskmeti þá minnkar fiskneysla almennings í Noregi ár frá ári. Svo rammt kveður að þessu að norsk stjórnvöld hafa ráðist í átak til að hvetja landa sína til fiskáts – og er spjótunum helst beint að ungu fólki.

Frjálst fall

Fiskneysla í Noregi hefur minnkað stórlega á síðustu árum – og munar fimmtán prósentum á milli ára, segir í frétt Fishupdate. Stjórnvöld hafa af þessu það miklar áhyggjur að herferð hefur verið hleypt af stokkunum þar sem þrjár máltíðir á viku er rauði þráðurinn.

Sérstakt lógó var hannað og því komi fyrir haganlega þar sem von er á ungu fólki – skilaboðin „þrisvar í viku“ eru skreytt hvers kyns skilaboðum um hversu heilsubætandi fiskátið er, auk þess sem uppskriftir að spennandi réttum og húsráð eru látin fylgja.

Markhópurinn er ungt fólk – eða aldurshópurinn átján til 40 ára, en þessi stóri hópur fúlsar helst við fiski. Norsk ungmenni eru reyndar í engu frábrugðin jafnöldrum sínum um heim allan sem velja frekar skyndibita en fisk – og kjúklingur er þeirra fyrsti kostur þegar elda á heima. Fiskurinn er ekki síst hafa tapað vinsældum vegna þess að ekki er sjálfsagt mál að matreiðsla á fiski takist vel hjá þeim sem óvanir eru. Er það talið skipta máli í þessu samhengi og að ungt fólk gefi sér sífellt minni tíma til að matbúa fyrir sig og sína.

Yfirvöld vongóð

Stjórnvöld vonast til að hægt sé að vekja norska neytendur til vitundar um gæði og kosti fiskmetis á árinu sem framundan er. Í þeim anda hefur verið lagt í sérstaka rannsókn hvernig auðveldast sé að ná athygli unga fólksins í gegnum þá miðla sem þau nota helst – samfélagsmiðla og aðra. Slík nálgun er helst talin líkleg til að ná árangri – að kynning á fiskmeti nái augum þeirra og eyrum á nefndum miðlum.

Skólabörnin eru þessu ekki undanþegin; yfirvöld hafa þegar fjárfest myndarlega í verkefnum sem ætlað er að vera lystaukandi fyrir yngstu árganganna. Með því að móta smekk þeirra strax er vonast til þess að fiskur fylgi þeim í gegnum lífið sem eftirsóknarverður valkostur.