Norski olíusjóðurinn mun auka hlutdeild sína í hlutabréfum úr 40% í 60% af eignum. Þetta kom fram í erindi Knut Kjær, forstjóra Norska olíusjóðsins, sem hann hélt á ráðstefnu ABP lífeyrissjóðsins í Hollandi í vikuni. Frá þessu er greint á heimasíðu Landssamtaka lífeyrissjóða.

Þar kemur fram að í erindi Knut Kjær sem fjallaði um langtímafjárfestingar kom fram að norska þingið hefði ákveðið að norski olíusjóðurinn sem er í ríkiseign mundi auka hlutabréfakaup sín á næstunni. Kjær sem hefur stjórnað norska olíusjóðnum í 10 ár sagði að lífeyrissjóðir sem langtímafjárfestar ættu frekar að líta á sig sem ?eigendur hlutabréfa? heldur en ?lánardrottna? á skuldabréfamarkaði.


Kjær lagði áherslu á að mikilvægi þess að endurmeta þurfi allar fjárfestingar og greindi frá því að allar tekjur, sem kæmu framvegis í sjóðinn vegna olíunnar, yrði notaðar til að fjárfesta í hlutabréfum.

Hann benti á að á árinu 1997 hefði sjóðurinn fjárfest 100% í skuldabréfum, en sjóðurinn hefði smám saman aukið aukið áhættuna í fjárfestingum sínum.

Þrátt fyrir stöðuga gagnrýni frá norskum fjölmiðlum og mörgum stjórnmálamönnum hefur árleg meðalávöxtun sjóðsins numið 4,6% frá ársbyrjun 1997.