Seðlabankinn í Noregi lækkaði í dag stýrivexti sína um 0,25 prósentustig og eru vextirnir nú 0,50%, að því er kemur fram í frétt Dagens Næringsliv.

Vextir seðlabankans voru síðast lækkaðir í september. Seðlabankastjórinn Øystein Olsen segir í tilkynningu að eftir því hvernig aðstæður þróast á árinu komi til greina að lækka vexti enn frekar þegar líður á árið.

Rökstuðningurinn fyrir vaxtalækkuninni byggði einkum á tveimur þáttum. Annars vegar hefði vaxtastig erlendis farið lækkandi og hins vegar hefði þróun norska efnahagslífsins verið óhagstæðari en gert hefði verið ráð fyrir. Eins hefði atvinnuleysi aukist.