Lágt olíuverð hefur leikið þau fyrirtæki grátt sem smíða skip til olíuleitar og til að þjónusta olíugeirann með öðrum hætti. Kemur þetta fram í nýrri skýrslu matsfyrirtækisins Moody's. Er þar bent á að EBITDA hagnaður norskra olíuskipaframleiðenda hafi minnkað um 40% á síðustu tólf mánuðum og að mörg þeirra hafi þurft að grípa til harkalegra aðgerða til að leysa fjármagnsvanda sinn. Þannig greindu fyrirtækin Solstad Offshore og Rem Offshore frá því í júlí að þau ætluðu að sameinast.

Í dag greindi svo stærsti framleiðandi olíuleitarskipa í Noregi, Farstad Shipping, frá því að félagið hefði tapað 849 milljónum norskra króna á öðrum ársfjórðungi, sem samsvarar um 11,8 milljörðum íslenskra króna. Eigið fé félagsins hefur minnkað um helming á síðustu tólf mánuðum og nemur nú 3,6 milljörðum norskra króna og laust fé hefur minnkað um 600 milljónir norskra króna.

Þá var nýlega greint frá því að Fáfnir Offshore hefði tapað tveimur milljörðum króna í fyrra.

Flestir lánadrottnar fyrirtækisins í bankakerfinu samþykktu í júní að fresta greiðslum af lánum fyrirtækisins til 1. október á þessu ári og er það ekki í fyrsta skipti sem lánadrottnar létta undir með fyrirtækinu með einhverjum hætti. Í þessum hópi eru bankar eins og DNB Bank, Danske Bank og Nordea Bank.

Í skýrslu Moody's segir ennfremur að lánatap norskra banka hafi tvöfaldast á fyrri helmingi þessa árs samanborið við árið á undan. Námu lánatöp 0,34% af heildarútlánum bankanna í lok júní á þessu ári, en hlutfallið var 0,17% ári fyrr. Hjá DNB, Sparebank 1 SR-Bank og Sparebank 1 SMN hafa lánatöp aukist um 197% á síðustu 12 mánuðum.

Segir í skýrslunni að bankarnir séu betur staddir en aðrir lánveitendur, þar sem þeir hafa flestir veð í skipum skipaframleiðandanna. Hins vegar séu bankarnir tregir til að taka slík veð til sín núna þar sem afar erfitt væri að fá raunvirði þeirra tilbaka nú þegar markaður fyrir slík skip er eins lélegur og raun ber vitni.