Breski bankinn Northern Rock, sem hefur einkum sérhæft sig í fasteignalánum, mun ekki greiða arð til hluthafa sinna eins og bankinn hafði tilkynnt um á mánudaginn. Frá þessu greindi breska ríkisútvarpið (BBC) í gær.

Fyrirtækið hafði áformað að greiða arð upp á 14,2 pens til hluthafa, samtals að virði 59 milljóna punda, en sökum þrýstings frá bæði fjármálaráðuneytinu og fjármálaeftirlitinu ákváðu stjórnendur Northern Rock að draga þau áform til baka. Gengi bréfa í félaginu hafði lækkað um ríflega 5% þegar kauphöllinni í London var lokað í gær.