Gengi bréfa í breska bankanum Northern Rock hækkuðu um ríflega 11% í gær - í fyrsta skipti í vikunnni - eftir að fyrirtækið, sem hefur einkum sérhæft sig í fasteignalánum, greindi frá því seint á þriðjudaginn að bankanum hefðu borist fjölmargar fyrirspurnir frá áhugasömum fjárfestum. Í kjölfarið hafa líkur á yfirtöku á bankanum aukist verulega, en slík lending er talin nauðsynleg til að bjarga Northern Rock úr þeim fjárhagsvandræðum sem hann hefur verið í.

Northern Rock staðfesti einnig að bankinn hygðist ekki greiða arðgreiðslu til hluthafa upp á 14,2 pens á hlut, líkt og félagið hafði áður áformað. Breski bankinn, sem er fimmti stærsti fasteignalánaveitandi á Bretlandi, var undir miklum þrýstingi - bæði frá fjármálaráðuneytinu og fjármálaeftirlitinu - að hverfa frá þeim áformum, en fyrirhuguð arðgreiðsla var 30% hærri heldur en á sama tíma og fyrir ári.

Í tilkynningu sem Northern Rock sendi frá sér kom fram að bankinn hefði ákveðið að hætta við greiðsluna sökum þess að fyrirtækið ætti í viðræðum við hugsanlega kaupendur. Jafnframt kom fram að um væri að ræða margra áhugasama fjárfesta og að meðal annars hefði verið rætt um yfirtöku á bankanum, enda þótt viðræðurnar væru enn aðeins á byrjunarstigi og óvíst hver niðurstaðan verður.