*

þriðjudagur, 17. júlí 2018
Innlent 13. september 2017 08:08

Norwegian og easyJet semja við Dohop

Íslenski flugleitarvefurinn Dohop mun knýja nýja vöru frá breska flugfélaginu easyJet þar sem viðskiptavinir geta fundið tengiflug milli flugferða.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Breska flugfélagið easyJet kynnir í dag nýja vöru, Worldwide by easyJet, sem knúin er af tækni frá íslenska flugleitarvefnum Dohop.

Í fyrsta skipti í sögu easyJet býður félagið upp á þjónustu sem hjálpar viðskiptavinum að finna tengiflug segir í fréttatilkynningu. Annars vegar má finna tengingar milli tveggja easyJet fluga og hins vegar milli easyJet og samstarfsflugfélaga. Fram að þessu hefur easyJet aðeins selt eigin flug á sínum vef en brýtur með þessu blað í sögu sinni.

Worldwide by easyJet fer af stað í dag í samstarfi við tvö flugfélög, Norwegian og WestJet. Í fyrstu verður aðeins boðið upp á tengingar í gegnum Gatwick flugvöll í London en hann er aðalflugvöllur easyJet. Það er GatwickConnects þjónustan, sem Gatwick setti á laggirnar árið 2015 í samstarfi við Dohop, sem veitir tengifarþegum þjónustu á vellinum.

„Þetta samstarf við easyJet boðar tímamót í sögu Dohop,” segir Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri félagsins. „easyJet er leiðandi lággjaldaflugfélag í Evrópu og það áttunda stærsta í heimi miðað við farþegafjölda. Okkar hugbúnaður hjálpar þeim að stíga stórt skref í átt að áframhaldandi vexti og styrkja stöðu sína sem brautryðjendur meðal flugfélaga í heiminum."

Dohop hefur frá stofnun félagsins árið 2004 einbeitt sér að því að finna tengingar milli lággjaldaflugfélaga og hefðbundinna flugfélaga. Dohop kynnti nýja vöru, Dohop Connect, í nóvember á síðasta ári og býður þar notendum upp á að bóka og greiða fyrir tvo aðskilda flugmiða í einu lagi. Það er sú tækni sem Worldwide by easyJet byggir á, ásamt samstarfi Dohop og Gatwick.