Tannlæknar nota gull í æ minnkandi mæli til tannfyllinga, en notkunin hefur minnkað um 60% á síðustu fimm árum. Tannlæknar telja að tannhvíttun sé um að kenna. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg.

Fyrir áratug síðan voru um það bil 67 tonn af gulli notuð víðsvegar um heim til tannfyllinga. Markaðsvirði gullsins, á gengi dagsins í dag, nam einhverjum 2,7 milljörðum Bandaríkjadala á heimsvísu. Það eru um 334 milljarðar íslenskra króna.

Ódýrari tegundir tannfyllinga á borð við keramik og tannsement auk hækkandi gullverðs hafa leitt til þess að æ færri notast við eðalmálminn í læknisfræðilegum tilgangi. Aðrir kenna því um hve tannhvíttun sé vinsæl nú til dags.

„Það er tískan í tannlækningum að fólk verði að hafa skjannahvítar eðaltennur,” segir Hugo Sachs, varaforseti ástralska tannlæknafélagsins, sem hefur verið tannlæknir í meira en 37 ár.