*

mánudagur, 22. apríl 2019
Erlent 6. febrúar 2017 14:29

Nota Snapchat 18 sinnum á dag

Fjöldi notenda Snapchat hefur tvöfaldast á tveimur árum og meðalnotandinn opnar snjallforritið 18 sinnum á dag.

Ritstjórn
Talið að verðmæti Snapchat sé um 20 til 25 milljarðar dollara.
epa

Snapchat er væntanlegt á hlutabréfamarkað í New York og í tilefni þess þá hefur Birgir Stefánsson, forstöðumaður fyrirtækja- og fagfjárfestingaráðgjafar VÍB tekið saman skemmtilegan pistil um ótrúlegan vöxt fyrirtækisins og horfur.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um er talið að verðmæti fyrirtækisins sé um 20 til 25 milljarðar dollara. „Til að setja það í samhengi er það um helmingi meira en verðlagning Twitter við skráningu en um fjórðungur af virði Facebook þegar sú fræga skráning átti sér stað. Þar sem fyrirtækið er ennþá óskráð er stuðst við útboðsgögn sem eru orðin aðgengileg,“ segir í umfjölluninni.

Gífurlegur vöxtur

Notendur Snapchat eru, samkvæmt þessum sömu útboðsgögnum, 161 milljón manna daglega - og hefur fjöldi þeirra tvöfaldast á tveimur árum. Meðalnotandinn opnar snjallforritið 18 sinnum á dag og notar það í um 25 til 30 mínútur.

„Eitt er að opna og skoða en annað að nýta. Allt að 60% notenda býr til snöpp eða spjallar í gegnum forritið daglega. Líkt og með Facebook, sem skráð var árið 2012, er ekki það sama að eiga marga notendur og fá miklar tekjur. Það er þó mikilvægur hluti af tekjumöguleikunum að hafa sem flesta notendur og geta náð til þeirra með alls kyns auglýsingum og skilaboðum. Þar er Facebook með vinninginn eða um 1,2 milljarða notenda daglega,“ telur Birgir til í samantektinni.

Íslendingar geta orðið eigendur

Helsti keppinautur Snapchat er að öllum líkindum Instagram, sem er í eigu Facebook. Þar er unnið hörðum höndum að bregðast við samkeppninni frá Snapchat. „Nýjustu tölur frá Instagram hafa gefið til kynna um 300 miljónir notenda daglega og þar af um 150 miljónir sem notast við sögur (e. Stories). Þar mætast stálin stinn en í ágúst á síðasta ári, þegar Instagram innleiddi þennan nýja lið, sagði Techcrunch að notkun á Snapchat hefði minnkað á bilinu 15-40%.

Nú þegar afléttingu gjaldeyrishafta hefur verið hrundið af stað má því segja að loksins geta notendur Facebook, Instagram og Snapchat ekki bara notað forritin heldur líka keypt bréf í félögunum, og orðið eigendur þeirra,“ bendir Birgir á að lokum.

Stikkorð: Snapchat upplýsingar notendur skráning
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim