Viðræður hafa staðið yfir á milli Nova og Auðkennis, sem er fyrirtækið sem á og rekur rafræn skilríki, um að Auðkenni beri kostnaðinn sem hlýst af rekstri og notkun rafrænna skilríkja á kerfi Nova. Vegna aðkomu fleiri aðila að framtíðarfyrirkomulagi þessara mála, svo sem opinberra aðila, er ljóst að töf verður á að skýr niðurstaða fáist. Nova hefur því ákveðið að rukka ekki fyrir notkun á rafrænum skilríkjum frá og með í dag, 1. desember, í þeirri von um að ná samkomulagi við Auðkenni. Þetta segir í tilkynningu frá Nova.

Nova hefur haldið þeim sjónarmiðum á lofti að það sé ekki eðlilegt að Nova og viðskiptavinir fyrirtækisins niðurgreiði þjónustu Auðkennis.

Haft er eftir Liv Bergþórsdóttur, forstjóra Nova, að henni þyki það miður að viðskiptavinir Nova hafi flækst inn í deilur Nova við Aukenni, bankana og Símans. „Við munum láta af verðlagningu frá og með deginum í dag í þeirri von um að samningar við Auðkenni fái farsælan endi,“ er enn fremur haft eftir Liv.

„Auðkenni er í ráðandi stöðu á markaði fyrir útgáfu rafrænna skilríkja. Eigendur félagsins eru Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn sem Samkeppniseftirlitið hefur ályktað um að séu í sameiginlegri markaðsráðandi stöðu á viðskiptabankamarkaði. Þá er Auðkenni einnig í eigu Símans og Teris, sem er aftur í eigu Reiknistofu bankanna,“ segir að lokum í tilkynningunni.