Nova er eina símafyrirtækið sem tekið hefur ákvörðun um að rukka fyrir hverja notkun á rafrænum skilríkjum. Þetta kemur frá á vef RÚV. Þar er haft eftir Liv Bergþórsdóttur, forstjóra Nova, að frá og með 1. febrúar, muni símafyrirtækið innheimta 13,9 krónur fyrir hvert skipti sem rafræn skilríki séu notuð. Liv segir að gjaldið samsvari verði á einu sms-skeyti.

Í frétt á vef RÚV segir að hvorki Síminn né Vodafone muni innheimta gjald vegna notkunar rafrænna skilríkja á þessu ári. Ekkert hafi hins vegar verið ákveðið með framhaldið. Enn fremur er haft eftir Haraldi A. Bjarnasyni, framkvæmdastjóra Auðkennis, að símafyrirtækin hafi ekki verið rukkuð fyrir rafræn skilríki frá því þau voru fyrst gefin út í nóvember 2013. Hann segir að ekki verði innheimt gjöld á þessu ári en hugsanlega verði það gert frá og með næstu áramótum.