Það var frumkvöðlafyrirtækið Nox Medical sem hlaut verðlaunin Frumkvöðull ársins hjá Viðskiptablaðinu árið 2015. Verðlaunin fyrir Sprota ársins hlaut þá Datadrive. Helga Valfellsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs, veitti verðlaunin við margmennishóf í Apótekinu í dag.

Tíu ára afmæli og útflutningsverðlaun

Nox Medical hefur komið sér í flokk helstu framleiðenda á svefnrannsóknarbúnaði í heiminum. Nýjasta vara fyrirtækisins kom á markað í síðustu viku. Það var stofnað árið 2006 af sjö einstaklingum en nú starfa um 50 manns hjá fyrirtækinu.

Fyrir skömmu síðan fagnaði Nox Medical tíu ára afmæli sínu, en á sama degi var fyrirtækinu veitt útflutningsverðlaun Forseta Íslands. Velta fyrirtækisins hefur tífaldast á síðustu fjórum árum og var 1,5 milljarður króna á síðasta ári. Framkvæmdastjóri þess er Pétur Már Halldórsson.

Vildu gera svartan kassa fyrir bíla

Þá var fyrirtækið Datadrive valið Sproti ársins 2016 af Viðskiptablaðinu. Félagið var stofnað í tengslum við Startup Reykjavík árið 2015 en stofnendur þess eru Höskuldur Þór Arason, Guðmundur Grétar Sigurðsson, Björn Sigurðsson og Þórólfur Gunnarsson.

Datadrive framleiðir hugbúnaðarlausn sem mælir notkun bifreiðar og verkar sem eins konar svartur kassi, eins og þekkist í flugvélum. Kubbur Datadrive mælir þá og skrásetur hvernig bifreiðin er keyrð og hvernig bæta má akstur og minnka má vistspor.

Nánar er fjallað um Nox Medical, Datadrive og fjölda annarra frumkvöðlafyrirtækja í Frumkvöðlum , nýju aukablaði Viðskiptablaðsins.