Ellilífeyrisþegi vann mál gegn Landsbankanum fyrir Hæstarétti, sem staðfestir að tveggja ára fyrningarfrestur gildir jafnt um ábyrgðarmenn sem þá sem fara í gjaldþrot. Þetta er fyrsti dómur Hæstaréttar í máli sem þessu og er hann því fordæmisgefandi en Viðskiptablaðið fjallaði um dóminn hér .

Börkur I. Jónsson, héraðsdómslögmaður, flutti málið fyrir hönd ábyrgðarmannsins í Héraðsdómi fyrir ári síðan.  Björn Þorri Viktorsson hæstaréttarlögmaður flutti málið síðan fyrir Hæstarétti.

„Þegar minn umbjóðandi skrifaði undir nýtt skuldabréf, með veð í sinni fasteign, til uppgjörs á gömlu skuldinni þá vissi hann ekki að hún var fyrnd,"segir Björn Þorri. „Hann var ósáttur og þess vegna leitaði hann til Barkar með málið og nú er loks kominn endanlega niðurstaða. Börkur á mjög stóran þátt í þessu máli — hann lagði þetta vel upp."

Björn Þorri segir að réttarstaða þessara mála hafi verið mjög óljós áður en dómurinn féll.

„Mörg fjármálafyrirtæki hafa þráast við og ekki viljað láta þessa reglu um tveggja ára fyrningarfrest gilda um ábyrgðarmenn. Nú er komið svar frá Hæstarétti. Það er búið að staðfesta að ábyrgðir fyrnist með sama hætti og aðalskuldin. Það er eflaust margir ábyrgðarmenn sem vita ekki af þessu og það getur vel verið að sé fullt af svipuðum málum þarna úti, þar sem ábyrgðarmenn hafa í rangri trú undirgengist nýjar skuldbindingar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .