Fylgi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins mælist svipað og í síðustu borgarstjórnarkosningum, en nær 32% segjast
myndu kjósa Samfylkinguna og rúmlega 26% Sjálfstæðisflokkinn færu kosningar til borgarstjórnar fram í dag.

Myndi Samfylkingin, Vinstri græn og Píratar fá samtals 13 af 25 sætum í komandi borgarstjórn ef þetta yrði niðurstaðan, en Björt framtíð sem einnig er með í meirihlutanum myndi þurkast út. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa síðustu kannanir sýnt Sjálfstæðisflokkinn bæta nokkru við sig frá kosningunum fyrir fjórum árum.

Nú segjast slétt 11% myndu kjósa Pírata sem er um fimm prósentustigum hærra hlutfall en kaus flokkinn í síðustu kosningum. Tæplega 11% myndu kjósa Vinstri græn, en rúmlega 8% kusu flokkinn 2014. Næstum 8% myndu kjósa Viðreisn, liðlega 6% Miðflokkinn og rúmlega 3% Flokk fólksins en þessir flokkar voru ekki í framboði í síðustu kosningum.

Framsókn myndi missa 8 prósentustig

Liðlega 3% myndu kjósa Framsóknarflokkinn sem er hátt í átta prósentustigum lægra hlutfall en kaus Framsókn og flugvallarvini í síðustu kosningum. Ef borgarfulltrúum er skipt milli flokka út frá niðurstöðum könnunarinnar fengi Samfylkingin átta borgarfulltrúa, Sjálfstæðisflokkurinn sjö, Píratar þrjá, Vinstri græn og Viðreisn tvo hvor og Miðflokkurinn fengi einn borgarfulltrúa.

Um hálft prósent segist myndi kjósa aðra flokka, þar af 0,4% Sósíalistaflokkinn og 0,1% Höfuðborgarlistann.Nær 10% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og tæplega 7% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til borgarstjórnar í dag.