Birgir Ómar Haraldsson framkvæmdastjóri Norðurflugs segir nýja þyrlu félagsins kosta um 200 milljónir króna, en hún kemur í stað eldri Airbus SA365N vélar sem komin er á sölu. Auk þess að vera stærri og rúmbetri en aðrar vélar félagsins er nýja vélin hönnuð með það í huga að tryggja farþegum gott útsýni.

„Útsýnið úr þessari þyrlu er alveg einstakt, en ég hef lýst þessu fyrir fólki þannig að þetta sé eins og að vera í svona IMAX þrívíddarbíói. Við hlið flugmannsins sitja tveir farþegar en búið er að lyfta upp farþegunum sem sitja aftur í um 15 sentimetra, svo þeir sjá yfir flugmannin og farþegana sem eru frammí,“ segir Birgir en hver farþegi situr í einstaklingssætum.

„Kabínan er um fjórðungi stærri en í þyrlunum sem við erum nú með, hún tekur sex farþega mjög þægilega, en hinar taka mest fimm manns. Hún er samt sem áður mun rýmri. Auk þess er þyrlan hönnuð til að vera mjög hljóðlát, eða líklega fimmtungi hljóðlátari en flestar aðrar.“

Airbus EC130 vélarnar eru 7 desíbelum fyrir neðan viðmið alþjóðlegu flugmálasamtakanna ICAO, og þar með fyrir innan viðmið um hljóðmengun sem þjóðgarðarnir í Bandaríkjunum setja sér.

„Það er oft kvartað undan því að þyrlur séu hálfgerðir hávaðaseggir, þó það sé kannski ekki alveg rétt. Við höfum samt sem áður viljað taka tillit til þess, án þess að við höfum neitt sérstaklega verið beðin um það og höfum við því alltaf verið að fljúga hærra og hærra til að minnka það ónæði sem af þyrlunum getur stafað,“ segir Birgir sem er ánægður með tæknilega getu nýju vélarinnar.

„Almennt séð þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af drægni á Íslandi, þessar þyrlur komast auðveldlega landhluta á milli. Fyrir utan það erum við með eldsneyti víða um land.“

Frá auðjöfri í S-Ameríku

Birgir segir þyrluna mikinn happafeng, sem helst megi líkja við að hafa fengið upp í hendurnar lítið notaðan ömmubíl, en ekki er komið á hreint hvað það fæst mikið fyrir gömlu vélina sem nú er til sölu. „Við höfum ekki klárað þá sölu, svo maður veit það ekki, við höfum ekki verið mikið að rembast við hana, heldur höfum við verið í öðrum verkefnum,“ segir Birgir.

„Við höfum rekið fyrirtækið svona eins og heimilið okkar, eitt af því er að skulda helst ekki of mikið og hafa gætur á kostnaði og öðru. Við vorum búin að leggja inn í sjóði til að geta keypt vélina sem er 2009 módel. Hún var í eigu suður amerísks auðjöfurs sem notaði hana ásamt tveimur öðrum fyrir sig og fjölskyldu sína og var hvergi til sparað í útbúnaði þyrlunnar. Þyrlan bara beið við húsið ef hann vildi skreppa eitthvert. Sem betur fer eru svona einstaklingar að koma til Íslands, eða annað álíka efnað fólk.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . A ðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Gengi einnar af örfáum eftirlifandi hverfisverslunum borgarinnar
  • Umfjöllun um afkomu Stofnfisks sem batnar verulega milli ára
  • Áhrif nýs uppgjörs Arion banka á væntanlega skráningu
  • Umfjöllun um kaup og sölu á Icelandic Iberica
  • Ítarlegt viðtal við Eyþór Arnalds borgarstjórnarefni og oddvita Sjálfstæðisflokksins
  • Sérfræðingur leiðbeinir fyrirtækjum um meðhöndlun „mememe“ kynslóðarinnar.
  • HM í knattspyrnu hefur áhrif á sölu laxveiðileyfa.
  • Bylgingarkenndri lausn íslensks fyrirtækis á meðhöndlun bakteríusýkinga
  • Nýr forstjóri Coca Cola á Íslandi segir frá hugðarefnum sínum
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um kommúnisma.