Flugfélagið Wow air mun breyta áætlunarleið sinni til Svíþjóðar frá og með 18. nóvember næstkomandi og mun þá fljúga til Arlanda flugvallar í Stokkhólmi í stað Västerås flugvallar, en þangað hefur flugfélagið flogið síðan áætlunarferðir hófust til borgarinnar í maí síðastliðnum.

Sala hefst í dag

Hefst sala ferða til flugvallarins, sem er sá stærsti í Svíþjóð, í dag og verður flogið fjórum sinnum í viku, sunnudaga, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga.

Flugvöllurinn er mikilvægur tengiflugvöllur í flug til fjölda áfangastaði, bæði í Mið-Austurlöndum og Asíu. Auk þess er einungis um 18 mínútna lestaferð frá flugvellinum til miðborgar Stokkhólms.

Mikil fjölgun ferðamanna frá Svíþjóð en þeim fækkaði áður

Ferðamönnum til Íslands frá Svíþjóð hefur fjölgað síðustu ár en 31.189 Svíar hafa komið til landsins það sem af er ári. Eru þeir í 7. sæti yfir þær þjóðir sem mest hafa heimsótt landið á þessu ári.

Aukning þeirra er um 50% ef miðað er við júnímánuð í ár og í fyrra. Á árunum 2014 til 2015 fækkaði hins vegar ferðamönnum frá Svíþjóð um 17% ef horft er til sama mánaðar.