Atvinnuveganefnd hefur nú afgreitt búvörulög en leggur til róttækar breytingar á þeim. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, að breytingarnar séu „mjög róttækar miðað við það frumvarp sem var lagt fram.“ Breytingarnar snúist helst um útfærslu samningsins og tímasetningu hans.

Kveðið er á um það í lögum að það eigi að vera kosið aftur 2019 - og að breyttir samningar eigi að taka gildi árið 2020. Jón bendir á að þetta sé mál sem þurfi sem breiðasta samstöðu um.

Þjóðarsamtal um framtíðarstefnu í landbúnaðarmálum

Hann segist vilja þjóðarsamtal um framtíðarstefnu í landbúnaðarmálum. Það þýðir að aðilar sem að málinu koma ræði saman; þetta eiga vera fulltrúar bænda, neytenda, verslunar og allir þeir sem koma að málinu. Leggur Jón áherslu á ráðherra setji þessa vinnu af stað sem fyrst og að allt eigi að vera undir.

Til þess að það gæti orðið þá þarf að ná sátt í íslenskum landbúnaði.

„Það er endurskoðunarákvæði í samningnum 2019 og við viljum gera það víðtækara en það er nú þegar.“

Jón tekur einnig fram að farið verði að tillögu Samkeppnisstofnunar um að fella burtu ákvæði um fyrirkomulag verðlagsbreytinga.

Flýta ákvæði um sérosta

Að sögn Jóns náðist samkomulag við viðsemjendur um að ákvæði í tollasamningum um sérosta taki gildi árið 2017 í stað þess að það taki gildi í áföngum á fjórum árum. Þetta þýðir að strax á næsta ári verður heimilt að hefja innflutning án tolla og gjalda. Hann segir að neytendur ættu að verða varir við þetta í auknu framboði og lægra verði.

Jón segir að með breytingunum, sem nefndin hafi gert, sé verið að innleiða nýja hugsjón við gerð búvörusamninga í íslenskum landbúnaði.