„Hugmyndin kom upp eftir að vinur minn sem er í litlum rekstri í ferðamannageiranum átti erfitt með að koma sér inn á markaðinn,“ segir Sigtryggur Arnþórsson, nemi í viðskiptalögfræði á Bifröst og stofnandi vefsíðunnar wheniniceland.com . Þar geta íslensk fyrirtæki komið sér á framfæri og birt auglýsingar sér að kostnaðarlausu.

Fyrirtæki þurfa einungis að skrá sig á vefsíðuna og setja inn þær upplýsingar sem þau vilja koma til skila til þeirra sem sækja síðuna heim.

„Það sem er nýtt í þessu er að fyrirtæki greiða ekkert fyrir birtingu og þau setja sjálf inn auglýsingar sínar,“ segir Sigtryggur.

„Formið er einnig öðruvísi en við höfum áður séð en nýjustu auglýsingarnar birtast efst og lifa í 90 daga inni á síðunni og detta síðan út. Eftir það geta fyrirtækin bara sett auglýsingarnar sínar aftur inn. Þá er alveg öruggt að allar upplýsingar eru ferskar og ekkert úrelt efni er að finna á síðunni,“ segir hann.