*

mánudagur, 18. febrúar 2019
Innlent 13. júní 2014 11:23

Ný metanafgreiðsla í Álfheimum

Mikil ánægja ríkir með metanafgreiðslu sem Olís opnaði síðasta sumar

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Olís hefur opnað nýja metanafgreiðslu á þjónustustöð félagsins í Álfheimum í Reykjavík. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Olís.

Metan er íslenskt eldsneyti sem er talsvert ódýrara en annað eldsneyti, og mun umhverfisvænna. Metanið er framleitt í Álfsnesi og unnið úr hauggasi sem verður til úr lífrænum úrgangi sem þar er urðaður. Þetta er önnur metanafgreiðslustöð Olís, en síðastliðið sumar var metanafgreiðsla opnuð á þjónustustöðinni í Mjódd.

Í tilkynningunni segir Jón Ó. Halldórsson, framkvæmdastjóri smásölu- og eldsneytissviðs Olís, að mikil ánægja ríki með metanafgreiðslustöðina meðal notenda þeirra fjölmörgu notenda metanbifreiða. Hann segir ánægjulegt að geta boðið íslenskt og vistvænt eldsneyti. Það sé þjóðhagslega hagkvæmt, spari gjaldeyri og skapi störf og sé þannig liður í sjálfbærni þjóðarinnar.

Um áramótin tóku gildi ný lög um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi. Þau kveða á um skyldu olíufélaganna til að tryggja að ákveðið hlutfall eldsneytis til samgangna sé af endurnýjanlegum uppruna. Olís hafði þá þegar uppfyllt þessi skilyrði, segir í tilkynningunni. 

Stikkorð: Olís Eldsneyti Metan