Samtök iðnaðarins (SI) og Opni háskólinn í HR hafa undirritað samstarfssamning um nýja námslínu sem er ætluð stjórnendum sem starfa í iðnaði. Áherslan í þessari nýju námslínu er á hagnýta þekkingu þar sem stjórnendum er gefið tækifæri til að efla færni sína í starfi að því er kemur fram í tilkynningu frá SI.

Kennt verður með raunhæfum verkefnum til að tengja námið vinnuumhverfi og viðfangsefnum þátttakenda.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sviðsstjóri fagsviðs mennta- og mannauðsmála hjá SI, segir í tilkynningunni að SI leggi áherslu á að stöðugt sé unnið að því að efla menntun fyrir atvinnulífið. Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður Opna háskólans, segir að um sé að ræða hagnýtt nám þar sem unnið verði með raunhæf verkefni sem þátttakendur geti tengt við dagleg störf.