Nýstárlegt hljóðfæri, 26 strengja rafstrokin harpa, hlaut Nýsköpunarverðlaun Forseta Íslands í ár. Verðlaunin voru veitt á Bessastöðum í dag, en hönnuður hljóðfærisins er Úlfur Hansson, nemandi við Listaháskóla Íslands. Leiðbeinandi hans í verkefninu var Hans Jóhannsson hjá Fiðlusmíðaverkstæðinu.

Eins og áður segir er hljóðfærið 26 strengja rafstrokin harpa, með snertitökkum, en er að auki sjálfspilandi með sérsmíðuðu tölvuforriti sem var hluti hönnunarvinnunnar. Í tilkynningu segir að við upphaf verkefnisins hafi verið lagt upp með að hanna og þróa nýja tegund hljóðfæris sem ætti erindi inn í heim raftónlistarinnar, en byggi engu að síður yfir hljóðfræðilegum eiginleikum hefðbundinna eldri hljóðfæra.

Strengirnir, sem eru innan í hljóðfærinu, eru knúnir áfram, eða „stroknir“, með snertitökkum úr kopar á viðaryfirborði. Hljóðið kemur innan úr hljóðfærinu, en þrátt fyrir að vera rafknúið er hljóðið einungis byggt á eigindum strengjanna sem slíkra.