Skipin tvö sem Karstensens Skibsværft í Danmörku er smíða fyrir Samherja og Síldarvinnsluna verða með umfangsmiklum búnaði frá Rolls-Royce Commercial Marine. Skipin eru Vilhelm Þorsteinsson og Börkur og verða þau afhent í júní og desember 2020.

Búnaðurinn fyrir skipin tvö er meðal annars tvær Bergen B33:45 dísilvélar, Promas skrúfur, stýrivélar, Helicon X3 stjórnkerfi og alls 17 spil í hvort skip. Skipin eru bæði 88 metra löng 16,60 metrar á breidd.  Burðargeta skipanna verður um 3.000 tonn af kældum afurðum.

Í fréttatilkynningu frá Rolls-Royce Commercial Marine segir Asbjørn Skaro, einn af yfirmönnum fyrirtækisins, að togararnir verði með hátæknivæddum og orkusparandi kerfum sem eru sérstaklega þróuð fyrir togveiðar við erfið skilyrði.

Skrokkur beggja skipanna er smíðaður í nýrri skipasmíðastöð Karstensens Skibsværft í Gdynia í Póllandi. Í fréttatilkynningu frá Karstensen er lýst mikilli ánægju með samninginn við íslensku útgerðarfélögin og hann sýni ekki einungis stöðu skipasmíðastöðvarinnar sem aðalhönnuðar og smíðaaðila stórra uppsjávarskipa heldur marki hann einnig stór tímamót hvað varðar innkomu á íslenska markaðinn. Hönnun skipanna, búnaður og skipulag sé afrakstur náinnar samvinnu skipasmíðastöðvarinnar og íslensku útgerðanna. Megin áherslan liggi í skipulagi á vinnuaðstöðu, öryggi og aðbúnaði fyrir áhöfn, vinnslu- og lestarrými og sparneytni skipsins.